Síðastliðin tvö ár hafa menntavísindasvið Háskóla Íslands og menntafyrirtækið NORTH Consulting leitt alþjóðleg verkefni sem kallast „Líf sem er lífsins virði: að hugsa um kennara og skólastjórnendur“ þar sem 60 kennarar og skólastjórnendur í fimm Evrópulöndum fengu þjálfun í nálgun sem við köllum „Líf sem er lífsins virði“ eða „LÍF.“ Markmið verkefnisins var að huga að velferð kennara og skólastjórnenda sem upplifa aukið álag í starfi, streitu og kulnunareinkenni með því að styðja þá í að finna tilgang og merkingu í eigin lífi. Niðurstöður mats meðal þátttakenda í verkefninu sýna marktækan mun á tilgangi og merkingu í eigin lífi í lok þjálfunar sbr. niðurstöður gagnreynds spurningalista (Meaning of Life Questionnaire). Þátttakendur greindu sömuleiðis frá verulegum persónulegum vexti, aukinni sjálfsvitund og sjálfsþekkingu, endurnýjaðri tilfinningu fyrir tilgangi faglegs starfs og aukinni getu til að nýta samræður og ígrundun meira í kennslu og stjórnun.
Líf sem er lífsins virði er einstök nálgun sem hægt er að nota jafnt til að finna tilgang og merkingu í eigin lífi en á sama tíma umbreyta faglegri forystu og menningu á vinnustað. LÍF byggir í grunninn á nálgun sem kallast „Life Worth Living“ og er uppruninn í Yale háskóla. LÍF er umbreytandi náms- og þjálfunarferli sem styður einstaklinga í að lifa merkingarbæru lífi og stuðlar að persónulegri velferð með því að ígrunda nokkrar af grundvallarspurningum lífsins, s.s. Hvað er farsælt líf? og Gagnvart hverjum er ég ábyrg/-ur/t? Umbreytingin við að finna merkingu og tilgang í lífinu með því að ígrunda eigin reynslu, afstöðu, gildi og viðhorf og kryfja ólíkar skoðanir og sjónarmið styður einstakling einnig í að verða annars konar leiðtogi á vinnustað; að leiða með því að vera trúr eigin gildum, rækta tengsl og móta sameiginlegan skilning á því í hverju farsæld á vinnustað felst. Þannig umbreytir Líf sem er lífsins virði nálgunin ekki bara lífi einstaklinga heldur einnig faglegri forystu og menningu vinnustaða.
Einn íslensku þátttakendanna hafði þetta að segja um reynslu af þátttöku í Líf sem er lífsins virði:
„Kjarninn minn er eldur. Ég hugsa hratt, veð í verkin og er óhrædd við að hoppa út í djúpu laugina og prófa eitthvað nýtt. Ég átti ekki von á því að finna yfirvegun og innri ró eftir fyrstu staðlotuna. Síðan þá eru liðnir 10 mánuðir og ég finn að þessi ró er komin til að vera. Ég hugsa enn hratt og veð í verkin en ég staldra við núna og skipulegg mig áður en ég veð af stað. Það hefur leitt til betri tímastjórnunar, meiri einbeitingar sem var ekki vanþörf á og ég finn að þetta hjálpar mér gríðarlega í að takast á við þær hindranir sem lífið kastar til mín.“
Guðrún Björg Ragnarsdóttir, Kennsluráðgjafi hjá Reykjavíkurborg og lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands
NORTH Consulting og Háskóli Íslands býður leiðtogum og stofnunum sem langar til að kynnast LÍF nálguninni á eigin skinni upp á heimsóknir í janúar þeim að kostnaðarlausu. Við bjóðum upp á allt að 2 klst heimsóknir sem samanstanda af stuttum fyrirlestri og æfingum sem veita innsýn í hvernig hægt er að stuðla að umbreytingu í eigin lífi og á vinnustað með LÍF nálguninni. Við sníðum heimsóknina að ykkar þörfum og þeim tíma sem þið hafið aflögu. Hafið samband við okkur í gegnum netfangið info@northconsulting.is eða í síma 8204752 (Andrea, Eiríkur, María og Ólafur Páll)
Skildu eftir svar