Mikið innra ferðalag: „Opnar á nýjar pælingar og sjónarhorn“

Líf sem er lífsins virði námskeiðið frá sjónarhóli fjögurra þátttakenda

Frá janúar til október 2024 tóku 12 kennarar og skólastjórnendur í grunnskólum víðs vegar um landið þátt í tilraunakennslu á námskeiðinu Líf sem er lífsins virði; að hugsa um kennara og stjórnendur.  NORTH Consulting, íslenskt mennta- og ráðgjafarfyrirtæki, þróaði námskeiðið ásamt Háskóla Íslands í samstarfi við alþjóðlegan hóp menntastofnana og prófessora sem eru hluti af Life Worth Living-verkefninu við Yale-háskóla í Bandaríkjunum þaðan sem Life Worth Living-nálguninn er upprunnin. Í stuttu máli gengur sú nálgun út á að leita svara við spurningum um tilgang lífsins og íhuga hvað við þurfum að gera til að öðlast hamingjuríkt og gott líf.

Við hittum fjóra þátttakendur á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur á dögunum og fengum að vita hvernig hefði gengið á námskeiðinu og hvaða áhrif það hefði haft á þau bæði í einkalífi og starfi.

„Við höfum myndað ótrúleg tengsl og traust í þessum litla hópi fólks sem þekktist ekkert áður en þetta ferðalag hófst,“ segir Ástrós Rún Sigurðardóttir, aðstoðarskólastjóri Stekkjaskóla í Árborg, þegar við höfum komið okkur fyrir og undir þau orð taka þau Jóhann Skagfjörð Magnússon, skólastjóri Garðaskóla í Garðabæ, Lilja Dögg Gylfadóttir, kennari í Áslandsskóla í Hafnarfirði, og Elín Matthildur Kristinsdóttir, sem er kennari í Grunnskólanum í Borgarnesi en hóf síðastliðið haust störf í Menntaskóla Borgarfjarðar.

Þau eru öll sammála um gagnsemi þess að taka þátt í námskeiðinu og ánægjuna sem hafi fylgt því að kynnast þátttakendunum.  „Ég upplifði þetta sem mikinn „me-time“, þar sem ég hef getað gefið mér tíma og leyft mér að fara í djúpar pælingar og umræður þar sem ekkert annað truflar,“ segir Elín og brosir.

Lilja Dögg bætir við að ofan á það hversu gefandi námskeiðið hafi verið, hafi það einnig verið andlega krefjandi. „Það er afhjúpandi oft og tíðum, en þegar maður hefur kynnst fólkinu sem er með manni á námskeiðinu, bæði stjórnendum og öðrum þátttakendum, þá upplifi ég fagmennsku og traust. Það er eiginlega mjög sérstakt hvað skapaðist fljótt mikið traust og hversu góður andi hefur verið í hópnum.“

Hin kinka kolli. „Já, það hefur ríkt mikil samheldni og traust á milli þátttakenda,“ tekur Jóhann undir með Lilju Dögg. „Við höfum hlegið mikið saman en einnig átt hreinskiptin og erfið samtöl,“ viðurkennir hann.

„Fyrir mér hefur þetta ferðalag snúist um að sættast við það sem liðið er og læra af því, njóta þess að dvelja í sjálfum sér og lífinu eins og það er núna en vera meðvitaður um framtíðina og hvernig við sjáum hana fyrir okkur og hvernig við ætlum að komast þangað,“

„Fyrir mér hefur þetta ferðalag snúist um að sættast við það sem liðið er og læra af því, njóta þess að dvelja í sjálfum sér og lífinu eins og
það er núna en vera meðvitaður um framtíðina og hvernig við sjáum hana fyrir okkur og hvernig við ætlum að komast þangað,“

Langt umfram væntingar

Var nálgunin á námskeiðinu eins og þið höfðuð gert ykkur í hugarlund eða kom eitthvað á óvart?

Þau hugsa sig um. Jóhann segir nálgunina hafa komið á óvart, satt best að segja, en hann hafi rennt nokkuð blint í sjóinn varðandi það hvernig hún yrði. „Leiðbeinendur námskeiðsins eru frábærir og duglegir að nálgast viðfangsefnið á mismunandi máta. Við höfum setið saman í hring og spjallað, unnið í pörum og hópum, farið í gönguferðir, heimsótt listasafn og átt þögult samtal – sem var mögnuð æfing!“

Nálgunin er að mati Ástrósar miklu áhrifaríkari en hún hafði ímyndað sér, meðal annars vegna þess að leiðbeinendur eru ólíkir og leiða hópinn áfram í samtölum og verkefnum með ólíkum aðferðum út frá eigin sérþekkingu. „Þau hafa fengið okkur í djúp samtöl um lífið, þar sem allt er rætt á einlægan og vel ígrundaðan hátt,“ segir hún.  

„Já, nálgunin var enn dýpri en ég hefði þorað að vona,“ bendir Elín á, „og langt umfram væntingar!“

Lilja Dögg kveðst ekki hafa verið búin að mynda sér sterka skoðun á nálgun námskeiðsins áður en það hófst. Hún segist hafa gert ráð fyrir því að unnið yrði með verkefni sem er að finna í Life Worth Living-bókinni en það hafi komið skemmtilega á óvart hversu fjölbreyttar aðferðir voru notaðar við að dýpka spurningar og kanna efnið. „Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað það væri mikil nánd og mikil opinberun,“ segir hún, „en fólk ræður því auðvitað sjálft hve mikil.“

Ástrós segist jafnframt kunna að meta að viðhorf allra skuli hafa verið virt og metin á námskeiðinu. „Verkefnin eru mjög ólík því sem maður hefur kynnst og góð fyrir okkar innra ferðalag og sjálfskoðun.“ 

Öðruvísi ferðalag

Ferðalag er einmitt orð sem Ástrós og Lilja Dögg kjósa báðar að nota þegar hópurinn er beðinn um að lýsa upplifun sinni af námskeiðinu í einu orði. Ástrós tekur fram að ferðalagið hafi þó verið töluvert ólíkt því sem hún bjóst við. „Ég hélt að þetta yrði meira vinnumiðað,“ játar hún, „en það er það alls ekki og leiðbeinendur okkar hafa einmitt talað um það; við ræðum ekki vinnuna. Vinnan snýr að okkur sjálfum. Þetta er því mikið innra ferðalag og ígrundun um lífið – sem er í einu orði sagt frábært!“ 

Í huga Lilju Daggar er námskeiðið ferðalag um lífið, það liðna, núið og framtíðina. „Fyrir mér hefur þetta ferðalag snúist um að sættast við það sem liðið er og læra af því, njóta þess að dvelja í sjálfum sér og lífinu eins og það er núna en vera meðvitaður um framtíðina og hvernig við sjáum hana fyrir okkur og hvernig við ætlum að komast þangað,“ útskýrir hún.

Elín kýs hins vegar frekar að nota orðið „upptendrun“ til að lýsa sinni upplifinu af námskeiðinu. „Það er vegna þess að námskeiðið var sífellt verið að opna á nýjar skynjanir, pælingar og sjónarhorn,“ bendir hún á. 

Á meðan finnst Jóhanni  orðið „áskorun“ eiga vel við sína reynslu. „Vegna þess að við höfum þurft að ræða málefni og tilfinningar sem maður gefur sér sjaldnast tíma til að gera nægilega vel í amstri dagsins, og jafnvel veigrar sér við að gera,“ segir hann.

Langaði að finna ástríðuna aftur

Þegar þau eru spurð hvað hafi orðið til þess að þau ákváðu að skrá sig á námskeiðið, þegar auglýst var eftir þátttakendum í nóvember 2023, kemur í ljós að fyrir því eru afar ólíkar ástæður.

„Ég var svolítið leitandi að einhverju sem fengi mig til að endurmeta starfskenningu mína,“ segir Ástrós og útskýrir að þegar hún rakst á auglýsinguna hafi hún verið orðin langþreytt af stöðugu vinnuálagi síðastliðin þrjú ár sem aðstoðarskólastjóri í nýjum grunnskóla, Stekkjaskóla í Árborg.

„Ég var búin að leggja allt mitt í verkefnið og meira til en fann á einhverjum tímapunkti að ég uppskar ekkert. Ég var bara þreytt og hugsaði mikið hvort þetta væri þess virði. Mig langaði að finna gleðina í starfinu aftur, ástríðuna fyrir uppeldis- og menntamálum, ná árangri og vera góð fyrirmynd bæði fyrir börnin og svo auðvitað fyrir starfsfólkið okkar líka. Þegar þú ert komin á endastöð ertu nefnilega ekki góð fyrirmynd. Þá er gott að skoða hvort maður getur breytt einhverju, horft inn á við og skoðað hvað maður vill gera öðruvísi með líf sitt. Þetta [námskeiðið] var pínulítið skrifað í skýin,“ segir hún.

Vildi verða betri manneskja

Lilja Dögg segist aftur á móti hafa verið búin að kynna sér námskeiðið Life Worth Living sem Yale-háskóli hefur unnið að og þróað síðan 2014 og sem Líf sem er lífsins virði byggir að hluta til á, hlustað á höfunda samnefndrar bókar fjalla um hana á Íslandi um sumarið, keypt bókina og ákveðið að lesa hana í samfloti með vinkonu sinni. Þegar námskeiðið var auglýst þurfti hún engan umhugsunarfrest. „Ég vissi strax að þetta væri eitthvað fyrir mig,“ segir hún, „ákvað að sækja um og vonaðist til að komast að, sem síðan gerðist.“

Elín segir lýsinguna á námskeiðinu einfaldlega hafa höfðað til sín. „Það virtist áhugavert og djúpt. Lýsingin gaf hæfilega mikið upp en gefið var í skyn að ýmislegt væri ósagt og það vakti forvitni mína,“ segir hún og bætir við að það hafi legið fyrir að visst hugrekki þyrfti til að taka þátt í þessu verkefni. 

Jóhann segist hins vegar hafa séð námskeiðið sem tækifæri til að rækta sjálfan sig og „jafnvel verða ögn betri manneskja“, eins og hann orðar það, en Jóhann er í krefjandi starfi sem skólastjóri Garðaskóla í Garðabæ, eins og áður sagði, og með stóra fjölskyldu og meðvitaður um mikilvægi þess að passa upp á sjálfan sig. 

Ég hef sjálf alltaf haft sterk gildi í lífinu, eins konar leiðarljós fyrir mig sjálfa, sem tengist  að hluta til uppeldi og tengslum við fólk. Í þessu ferðalagi hef ég lært að vera svolítið mildari við sjálfa mig, gefa mér tækifæri og tíma til að hugsa um mig og setja mig í fyrsta sæti, skoða samskipti við aðra, jafnvel fólk sem er mér nákomið.“

„Sárt en frelsandi líka“

Finnst ykkur námskeiðið hafa breytt því hvernig þið hugsið almennt um eigin tilgang í lífinu og hvað það er í raun sem gæðir lífið merkingu? Og hafið þið gert einhverjar breytingar eftir það?

„Já, algjörlega,“ svarar Ástrós. Hún segir að það sé kannski erfitt að lýsa því fyrir öðrum hvers konar námskeið þetta sé en hún telji að það skili hverjum þátttakanda ólíkum hlutum. „Ég hef sjálf alltaf haft sterk gildi í lífinu, eins konar leiðarljós fyrir mig sjálfa, sem tengist  að hluta til uppeldi og tengslum við fólk. Í þessu ferðalagi hef ég lært að vera svolítið mildari við sjálfa mig, gefa mér tækifæri og tíma til að hugsa um mig og setja mig í fyrsta sæti, skoða samskipti við aðra, jafnvel fólk sem er mér nákomið.“

Á námskeiðinu segist Ástrós einmitt hafa uppgötvað að sum samskipti hafi krafist of mikils af henni. „Of margir nákomnir mér hafa eingöngu tekið út úr „bankanum“ mínum en ekkert lagt inn,“ segir hún blátt áfram. „Í svona vinnu [eins og á námskeiðinu] fer maður að flokka og þora að velja frekar samskipti og samveru með fólki sem nærir mann og styrkir. Eins og það er sárt, er það frelsandi líka.“

Sér hlutina í nýju ljósi

Lilja Dögg segist lengi hafa burðast með neikvæðar hugsanir, þungar tilfinningar og ótta um hvað öðrum finnist um sig. Námskeiðið hafi fengið hana til að sjá hlutina í nýju samhengi og í réttara ljósi. 

„Það hefur fyrst og fremst opnað fyrir sjálfri mér hvers virði líf mitt er og fólkið mitt í kringum mig,“ lýsir hún. „Hverjum ég vil deila tíma mínum með, hver er þess virði og hvaða verkefni eru þess virði.“

Eftir því sem hafi liðið á það hafi hún farið að velta fyrir sér hvað það sé sem raunverulega skipti máli í lífinu. Eins og þegar hún þurfi að að velja um að mæta á viðburði eða vera með sjálfri sér eða fjölskyldunni. „Mér finnst ég síður vera að missa af einhverju. Ég finn hvað fjölskylda mín skiptir mig miklu máli. Og hvað litlu stundirnar, eins og að borða saman kvöldmat, hafa dýpkað [og hvað] litlu hlutirnir, eins og að skutla syni mínum, skipta miklu máli. Slíkt gefur mér tækifæri til að spjalla eða ferðast saman í þögninni og bara vera. Það að komast á fjallstindinn á sem skemmstum tíma er [með öðrum orðum] ekki lengur eini mælikvarðinn, það er í raun félagsskapurinn við sjálfa mig eða göngufélagana sem er dýrmætastur.“

Uppgötvaði skýrari tilgang

Jóhann segist einnig hafa náð að skerpa sína eigin sýn á lífið og tilveruna. „Á námskeiðinu hef ég lært að nálgast aðstæður og fólk út frá fleiri sjónarhornum en áður og í gegnum það uppgötvað skýrari eigin tilgang.“ Þá segir Jóhann að honum sé oft hugsað til fyrstu spurningar námskeiðsins „Gagnvart hverjum berum við ábyrgð?“ Í hans huga sé þetta spurning sem öllum sé hollt að spyrja sig að reglulega. „Í mínu tilfelli hefur hún orðið til þess að í dag tek ég færri verkefni sem eru einfaldlega ekki mín að taka að mér,“ nefnir hann sem dæmi.

Skipti um starf á miðju námskeiði

Námskeiðið olli sömuleiðis straumhvörfum hjá Elínu, sem segist finna meira öryggi í sjálfri sér og því hver hún er og hvað hún stendur fyrir. Fljótlega eftir að það hófst hafi hún uppgötvað að hana vantaði áskorun í annars áhugaverðu og þægilegu starfi sínu og að hún væri tilbúin í meiri ábyrgð. Elín lét því slag standa og skipti um starfsvettvang á miðju námskeiði. „Nýja starfið er eins og sniðið fyrir mig svo ég er mjög ánægð,“ segir hún og er full tilhlökkunar að takast á við áskoranir nýs starfs.

Kom á óvart hvað fólk var tilbúið að berskjalda sig

Áttuð þið von á því að þið mynduð uppgötva þessa hluti um ykkur, aðra og lífið sjálft?

„Ég átti alveg von á því að Líf sem er lífsins virði-ferðalagið yrði ein stór uppgötvun,“ svarar Elín, sem kveðst hafa notið þess að taka þátt í og hlusta á áhugaverð samtöl og pælingar á námskeiðinu. „En það sem kom mér kannski mest á óvart var hversu auðvelt var að skapa það andrúmsloft og traust í hópnum.“

Lilja Dögg tekur undir þessi orð Elínar. Hún hafði væntingar um að ljúka námskeiðinu með meiri sjálfsþekkingu og betri líðan en segir það hafa komið sér í opna skjöldu hversu mikla einlægni þátttakendur sýndu og hversu tilbúnir þeir voru að berskjalda sig, sem hafi valið því að aðrir gerðu slíkt hið sama. „Það kom mér á óvart hvað hópurinn er sterkur og einlægur og hvað hann small saman strax á fyrstu vinnustofunni,“ lýsir hún. „Fólk sem þekktist ekki neitt í upphafi hefur ofið fallegan kærleiksþráð.“

„Loksins hef ég lært að framkvæma hluti sem ég hef vitað innst inni að ég ætti að gera,“

Ný verkfæri og hagnýt endurmenntun

Jóhann kinkar kolli. „Hópurinn er sterk heild og á milli þátttakenda hefur ríkt traust og samheldni,“ segir hann. Hann segir aðallega hafa komið honum á óvart hversu hagnýtt námskeiðið er. „Loksins hef ég lært að framkvæma hluti sem ég hef vitað innst inni að ég ætti að gera,“ bendir hann á. 

Ástrós var líka í leit að hagnýtri endurmenntun, nýjum verkfærum í verkfærakistuna, en sá fljótt að þetta ferðalag var allt öðruvísi en hún bjóst við. „Mér fannst dásamlegt að uppgötva að það er ekki verið að fókusera á vinnuna sem slíka heldur okkur sjálf, samtalið, traustið, væntingar, fortíðina, framtíðina, andlega næringu og ró,“ segir hún.

Skýrari sýn á starfið

Nú eru Ástrós og Jóhann stjórnendur í skóla en Lilja Dögg og Elín kennarar, eins og áður sagði. Það er því forvitnilegt að vita hvort námskeiðið hafi haft áhrif á það hvernig þau sinna starfi sínu eða hvort þau langi til að breyta einhverju eftir þátttökuna þar?

Þau hugsa sig um.  Eftir mikið vinnuálag síðastliðin þrjú ár segist Ástrós hafa verið búin að glata neistanum í starfi sínu. Námskeiðið hafi hjálpað henni að finna neistann aftur og muna af hverju hún gerir það sem hún gerir.

„Ég reyni að vera góður og hvetjandi leiðtogi og fyrirmynd en á sama tíma góður samstarfsmaður,“ segir hún. „Ég er samt samkvæm sjálfri mér og leyfi mér að dreyma stórt og ég vil að við setjum okkur markmið og þorum að taka ákvarðanir með farsæld nemenda okkar í huga.“

Ástrós segist líka vera orðin betri í að setja eigin líðan í forgrunn, hugsa betur um heilsuna og stunda hreyfingu. „Með því er ég betri útgáfan af mér, betri móðir, betri maki og betri leiðtogi.“

 Jóhann er sammála Ástrós um að þátttaka á námskeiðinu hafi styrkt sig í starfi og honum finnst hann hafa öðlast skýrari sýn á það hvers hann geti ætlast til af sjálfum sér og öðrum.

„Ég hef einnig lært margar aðferðir til skoðanaskipta, aðferðir sem ég þekkti ekki áður, eins og þögult samtal sem ég hlakka mjög til að prófa með samstarfsfólki mínu,“ segir hann kíminn.

Aukinn drifkraftur

Elín skipti um starf á miðju námskeiði og segist hafa skilið við gamla starfið í fullri sátt og með stolti. Hún hlakkar til að takast á við áskoranir nýs starfs. „Námskeiðið hefur hjálpað mér að leyfa hjartanu og nýjum drifkrafti að leiða mig áfram,“ lýsir hún brosandi og bætir við að hún njóti þess mikið.

Lilja Dögg segist njóta þess að kenna, hafa góð áhrif og vera skjól fyrir börn. Henni finnst námskeiðið ekki hafa breytt sér beint sem kennara. Hins vegar hafi það breytt hugmyndum hennar við að byggja upp sjálfstæða einstaklinga sem líði vel í eigin skinni.

„Eftir að ég byrjaði á námskeiðinu hef ég markvisst kennt börnunum að tala fallega til sjálfra sín, að þau geti gert allt sem þau langar til gera og verða, en fyrst og fremst að vera góðar manneskjur,“ segir hún og heldur áfram. „Ég tók það til mín þegar við vorum að tala um hvernig svipbrigði hafa áhrif, líkamstjáning og önnur hegðun án orða, hversu mikilvægt það fyrir mig sem kennara að falla ekki í þá gryfju að útskýra ekki eins vel og ég get hvað það er sem ég er að meina þannig að barnið upplifi sig ekki ómögulegt og reyni að fylgja því markvisst eftir. “

Námskeiðið er einfaldlega frábær leið til að líta inn á við og skerpa á eigin lífsreglum og viðhorfi til lífsins og annars fólks. Ég mæli hiklaust með þátttöku fyrir alla.“ 

Mæla heilshugar með þátttöku

Í lokin, því ættu kennarar, skólastjórnendur og aðrir sem vilja efla sig sem leiðtoga í persónulegu lífi og faglegu starfi að taka þátt í námskeiði eins og Líf sem er lífsins virði?

Jóhann er fljótur til svars. „Námskeiðið er einfaldlega frábær leið til að líta inn á við og skerpa á eigin lífsreglum og viðhorfi til lífsins og annars fólks. Ég mæli hiklaust með þátttöku fyrir alla.“ 

Elín segist mæla með þátttöku fyrir alla sem vilja „finna sig enn betur í eigin lífi, bæði því sem tengist starfsvettvangi og persónulegu lífi.“

Lilja Dögg áréttar mikilvægi þess í erilsömu starfi kennarans hversu mikilvægt það er að vera í góðu jafnvægi, temja sér góða sjálfstjórn og lengja aðeins í viðbragðstíma sínum gagnvart áreiti og óvæntum uppákomum. Þátttaka í Lífi sem er lífsins virði hafi fært hana nær sjálfri sér og hún hefur öðlast meiri og dýpri innri ró.

„Það eru sífellt færri hlutir sem koma mér úr jafnvægi, ég er sáttari við sjálfa mig og dvel betur í sjálfri mér eins og ég er. Á námskeiðinu hef ég einnig þjálfast í að hlusta á skoðanir annarra og virða þær, víkka sjóndeildarhringinn og opna mér nýja sýn,“ segir Lilja Dögg.

Líf sem er lífsins virði er frábrugðið öðrum námskeiðum sem Ástrós hefur tekið þátt í. Hún mælir sannarlega með þátttöku en minnir á að fólk þurfi að hafa kjark og vilja til að fara í innra ferðalag. „En þar hefst allt,“ segir hún og bætir við: „Til að taka þátt í Líf sem er lífsins virði þarftu að vera opin og heiðarleg og hafa áhuga á fólki og mennskunni.“

Með þeim orðum þökkum við þeim Ástrós, Jóhanni, Lilju Dögg og Elínu fyrir spjallið og óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.

VILTU VITA MEIRA? SKRÁÐU ÞIG Á VEFFUND UM LÍF SEM ER LÍFSINS VIRÐI NÁLGUNINA ÞRIÐJUDAGINN 28. JANÚAR KL. 15 HÉR

Jóhann Skagfjörð Magnússon
Lilja Dögg Gylfadóttir
Ástrós Sigurðardóttir
Elín Matthildur Kristinsdóttir


Athugasemdir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *